Bíó og sjónvarp

Katrín skrifar framhald Olympus

Freyr Bjarnason skrifar
Katrín Benedikt ásamt leikaranum Gerard Butler.
Katrín Benedikt ásamt leikaranum Gerard Butler.
Framhald á hasarmyndinni Olympus Has Fallen sem á að gerast í London er í undirbúningi.

Sem fyrr verða handritshöfundar hin íslenska Katrín Benedikt, sem flutti til Bandaríkjanna þegar hún var sex ára, og eiginmaður hennar Creighton Rothenberger.

Samkvæmt Screen Daily mun framhaldið heita London Has Fallen og fjallar um hryðjuverkamenn sem gera árás á ensku höfuðborgina á meðan jarðarför forsætisráðherra Bretlands stendur yfir.

Gerard Butler, Aaron Eckhart og Morgan Freeman munu allir endurtaka hlutverk sín úr fyrri myndinni, sem var frumsýnd í mars síðastliðnum. Hún fjallaði um fyrrverandi lífvörð Bandaríkjaforseta sem lokast inni í Hvíta húsinu í miðri hryðjuverkaárás og var gerð eftir fyrsta kvikmyndahandriti Katrínar og Rothenbergers.

Myndin hlaut mjög góðar viðtökur og halaði inn 160 milljónir Bandaríkjadala um allan heim, eða um nítján milljarða króna. Framleiðslukostnaður nam um 80 milljónum dala, eða rúmum níu milljörðum króna.

Butler verður aftur einn af framleiðendum og eiga tökur að hefjast 5. maí á næsta ári í London. Enn á eftir að ráða leikstjóra en Antoine Fuqua leikstýrði fyrri myndinni.

Katrín og Rothenberger skrifa einnig handritið að Expendables 3 ásamt Sylvester Stallone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×