Táningarnir Sara Högnadóttir og Margrét Jóhannsdóttir unnu til silfurverðlauna í tvíliðaleik kvenna í badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna í dag.
Þær stöllur slógu út par frá Nýja-Sjálandi í gær í æsispennandi viðureign og mættu pari frá Wales í dag. Þær velsku unnu 21-11 og 21-8 og höfðu nokkra yfirburði.
Árangurinn er flottur hjá okkar stúlkum. Sara er 18 ára gömul og Margrét er nýorðin 19 ára.
Til úrslita í einliðaleik kvenna léku Airi Mikkela Finnlandi og Akvile Stapusaityte (4) Litháen til úrslita. Airi sigraði í þremur lotum 21 - 14, 18 - 21 og 21 - 11.
Í úrslitum í einliðaleik karla áttust við Beryni J. Tze Wong (5) Malasíu og Kian Anderson (7) Danmörku. Wong hafði nokkra yfirburði í leiknum og vann nokkuð örugglega í tveimur lotum 21 - 19 og 21 - 13.
Í tvenndarleik léku Alexander Bond og Ditte Soby Hansen Danmörku gegn Nicklas Mathiasen og Cecile Bjergen Danmörku í úrslitaleiknum. Alexander Bond og Ditte Soby Hansen höfðu mikla yfirburði í leiknum og unnu í tveimur lotum 21 - 9 og 21 - 13 eins og þau gerðu í öllum leikjum sínum í mótinu.
