FCK samþykkti tilboð Krasnodar í síðustu viku en það er upp á 22 milljónir danskra króna eða um 465 milljónir króna.
„Við hefðum gjarnan viljað halda Ragnari en tækifærið er gott fyrir hann og tilboðið það gott að félagið gat ekki neitað því,“ sagði Carsten Jensen, yfirmaður íþróttamála hjá FCK.
Ragnar hélt fyrr í vikunni til Abú Dabí þar sem Krasnodar er í æfingabúðum og æfði hann með liðinu í dag. Hann gerði tveggja og hálfs árs samning við félagið.
„Þetta var frábær tími hjá FCK og Parken er besti heimavöllur sem ég hef spilað á. Vonandi fæ ég tækifæri til að koma aftur til félagsins síðar á ferlinum,“ sagði Ragnar í viðtali sem birtist á heimasíðu FCK.