Ef að það er eitthvað sem Björgvin Páll Gústavsson elskar þá er það að spila í mikilli stemningu. Hann getur því eðlilega ekki beðið eftir leik kvöldsins.
"Ég hef gaman af því þegar allir eru á móti mér. Það væri æðislegt að ná því að leggja Dani fyrir framan 15 þúsund manns. Verkefnin verða ekkert mikið skemmtilegri en þetta," sagði Björgvin Páll spenntur.
"Þeir eru í þægilegri stöðu og geta mætt rólegir í leikinn. Við verðum að mæta klárir. Við erum enn að spila upp á mikið. Við vitum hvað við þurfum að gera þegar kemur að leiknum."
Ef Makedóníu vinnur Spán á Ísland möguleika á því að komast í undanúrslit. Ef það gengur ekki eftir þá er það leikurinn um fimmta sætið og það gæti ráðist á markatölu. Staðan mun liggja fyrir er strákarnir stíga út á gólfið.
"Þetta er risaáskorun gegn frábæru liði en við verðum að finna veikleika. Þeir hafa unnið sína leiki sannfærandi. Við verðum að halda í dönsku markverðina sem hafa verið frábærir."
Björgvin: Gaman þegar allir eru á móti mér
Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar