Það byrjar ekki vel hjá Jamaíska bobsleðaliðinu sem ætlar að taka þátt í Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí en leikarnir verða settir á föstudaginn.
Jamaíska bobsleðaliðið er komið til Sotsjí en missti af fyrstu æfingu sinni í brautinni af því að farangur liðsmanna týndist á leiðinni frá Bandaríkjunum til Rússlands.
„Þetta er mjög pirrandi. Okkur tókst loksins að fjármagna ferðina og erum komnir á staðinn og þá gerist þetta," sagði Winston Watts, aðalmaðurinn í bobsleðaliði Jamaíku, við BBC.
Jamaíska bobsleðaliðinu tókst að safna yfir 120 þúsund dollurum, rúmum fjórtán milljónum íslenskra króna, þegar liðið var búið að tryggja sér þátttökurétt á leikunum en fram að því stefndi í að fjárskortur kæmi í veg fyrir ferð Jamaíkamannanna til Rússlands.
Jamaíska bobsleðaliðið verður í sviðsljósinu í Sotsjí þótt að liðið sé ekki líklegt til árangurs. Það er nefnilega enginn búinn að gleyma hinni stórkostlegu mynd Cool Runnings, sem gerði skil þátttöku liðsins á Vetrarleikunum í Calgary.
Vetrarólympíuleikarnir verða í beinni útsendingu bæði á Stöð 2 Sport sem og hér inn á Vísi.
Jamaíska bobsleðaliðið missti af æfingu í Sotsjí

Tengdar fréttir

Netverjar komu bobsleðaliði Jamaíku á Ólympíuleikana
Jamaíka mun senda lið í bobsleðakeppni á Vetrarólympíuleikana eftir söfnun á netinu. Liðsmenn eru meira að segja komnir með ferðapening.