Hollendingurinn Sven Kramer missti af gullinu í tíu þúsund metra skautahlaupi karla á öðrum Vetrarólympíuleikunum í röð.
Hann laut í lægra hald fyrir landa sínum, Jorrit Bergsma, sem bætti Ólympíumet í greininni í dag með því að skauta vegalengdina á 12:44,45 mínútum. Kramer varð annar, tæpum fimm sekúndum á eftir.
Hollendingar unnu þrefalt í greininni því Bob de Jong varð þriðji, rétt á undan Seung Hoon Lee frá Suður-Kóreu sem vann gull í greininni á leikunum í Vancouver fyrir fjórum árum síðan.
Lee átti gamla Ólympíumetið en Bergsma bætti það í dag um rúmar fjórtán sekúndur. Þetta er hraðasti tími sem náðst hefur í greininni á svelli sem er við sjávarmál.
Kramer átti sigurinn vísan í greininni í Vancouver en gerði mistök sem urðu til þess að hann var dæmdur úr leik. Kramer vann þó gull í bæði Vancouver og Sotsjí í 5000 m skautahlaupi.
Þetta er í fjórða sinn sem Hollendingar raða sér í öll verðlaunasætin í skautahlaupi á leikunum í Sotsjí en Holland hefur alls unnið nítján verðlaun af þeim 27 sem hafa verið veitt hingað til.
