Umhverfisverndarsinninn Yevgeny Vitishko hefur verið handtekinn í Sotsjí fyrir að blóta á biðstöð. Þetta kemur fram í tilkynningu Amnesty International.
Vitishko hefur verið dæmdur í 15 daga fangelsi og telja samtökin lengd dómsins til marks um að sakfelling hans sé einungis til að koma í veg fyrir að Vitishko mótmæli Vetrarólympíuleikunum sem nú standa sem hæst.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Yevgeny Vitishko kemst í kast við lögin í tengslum við Ólympíuleikana. Í júní árið 2012 hlaut Vitishko þriggja ára dóm fyrir að vinna spellvirki á girðingu sem komið hafði verið upp í tengslum við framkvæmdir í aðdraganda þeirra.
Amnesty International krefst þess að Vitishko verði leystur úr haldi og ákærur gegn honum felldar niður. Einnig fara samtökin fram á að rússnesk stjórnvöld hætti að áreita aðgerðarsinna í Rússland, til að mynda umhverfisverndarsamtökin sem Yevgeny Vitishko er meðlimur í.
Frekari upplýsingar um málið má nálgast á heimasíðu Amnesty International á Íslandi.

