Íslensk stjórnvöld ætla ekki að lýsa því yfir eins og er, að engum verði vísað héðan til Úkraínu. Þetta kom fram í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.
Í svarinu segir að fylgst verði með þróun mála þar í landi. Íslensk stjórnvöld séu meðvituð um mótmælin í Kænugarði í Úkraínu. Ástandið sé bundið við afmarkaða staðsetningu að því er virðist, eins og er.
Stjórnvöld séu alltaf skuldbundin af lögum um útlendinga um vernd gegn ofsóknum. Skilyrði banns um að vísa fólki á brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu séu skilgreind í lögunum. Meta verði hvert tilfelli fyrir sig.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, bendi þeirri spurningu til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á þingi í gær, hvort til greina kæmi að vísa fólki héðan til Úkraínu ef dvalarleyfi þeirra væru útrunnin. Og hvort íslensk stjórnvöld ætluðu að koma með yfirlýsingu vegna þess.
Sigmundur svaraði Steinunni á þá leið að hann ætlaði ekki að skipta sér af vinnureglum Útlendingastofnunar þó vissulega væri ástæða til að hafa áhyggjur af ástandinu í Úkraínu. Innanríkisráðuneytið fer með yfirstjórn útlendingamála og því beindi fréttastofa fyrirspurn sinni þangað.

