Nú er Porsche að senda frá sér nýjar útgáfur af Boxster og Cayman og fá þeir báðir stafina GTS í enda nafns síns. Þessir GTS bílar eru í beinan karllegg við Boxster S og Cayman S bílana.
Í þeim báðum er hin þekkta 3,4 lítra boxer vél sem verður 330 hestöfl í Boxster og 340 hestöfl í Cayman. Hún skilar báðum bílunum þriðjungi úr sekúndu fyrr í hundraðið en S-bílarnir. Boxster GTS er 4,4 sek. og Cayman 4,3 sek. í 100.
Báðir þessir GTS-bílar verða með Sport Chrono pakkanum sem staðalbúnað, stillanlega fjöðrun og á 20 tommu svörtum felgum, í stíl við svarta umgjörð aðalljósanna. Alcantara áklæði er ráðandi í innréttingu bílanna. Verð Boxster GTS í Bandaríkjunum verður 73.500 dollarar og 75.200 fyrir Cayman GTS. Það verð er tíu þúsund dollurum hærra en á Boxster S og Cayman S.
