Gunnar Nelson er heldur betur farinn að láta til sín taka í UFC en hann er nú í fyrsta skipti kominn á topp 15 listann eftir sigurinn örugga á Omari Akhmedov í O2-Höllinni í London á dögunum.
Honum hefur nú í fyrsta skipti verið styrkleikaraðað í veltivigt UFC en hann er í 14. sæti á topp 15 listanum í sínum þyngdarflokki, veltivigt. Gunnar kemur þar nýr inn á lista eins og tveir aðrir.
Topp 15 listarnir eru búnir til eftir atkvæðum blaðamanna sem raða niður bestu bardagamönnunum í UFC. Hægt er að sjá lista hvers og eins blaðamanns og eru flestir með Gunnar í 14.-15. sæti.
Ekki eru allir með Gunnar á lista en JohanLekeborn (fightplay.tv), BrettOkamoto (ESPN.com) og BrianHemminger (MMA Oddsbreaker) virðast hafa mesta trú á okkar manni því þeir telja hann 12. besta bardagamanninn í veltivigtinni.
Gunnar er ekki efstur á listanum af þeim sem koma nýir inn. Bandaríkjamaðurinn KelvinGastelum (9-0-0), sem er ósigraður eins og Gunnar, er sæti ofar en hann vann mikilvægan bardaga á laugardaginn.
Efsti maður listans er Robbie Lawler sem tapaði fyrir JohnnyHendricks í mögnuðum titilbardaga síðastliðið laugardagskvöld.
Þetta er gríðarlegur áfangi fyrir Gunnar Nelson þar sem þetta er staðfesting á því að hann er orðinn einn besti MMA-bardagamaður í heimi.
Nú má búast við því að hann berjist næst og í framtíðinni við menn á topp 15 listanum og geti þannig haldið áfram að klífa metorðastigann í UFC. Gunnar berst vonandi næst í Dyflinni 19. júlí.
Topp 15 listinn:
Meistari: Johnny Hendricks
1. Robbie Lawler
2. Rory MacDonald
3. Carlos Condit
4. Tyron Woodley
5. Jake Ellenberger
6. Hector Lombard
7. Matt Brown
8. Demian Maia
9. Tarec Saffiedine
10. Dong Hyun Kim
11. Jake Shields
12. Mike Pyle
13. Kelvin Gastelum*
14. Gunnar Nelson*
15. Erick Silva*
*Ekki áður á lista
