Róbert Aron Hostert, leikmaður ÍBV í Olís-deild karla í handbolta, er búinn að semja til tveggja ára við danska úrvalsdeildarfélagið Mors-Thy og gengur í raðir liðsins í sumar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en hjá liðinu hittir Róbert hornamanninn knáa Guðmund Árna Ólafsson sem kom til Mors-Thy frá Bjerringbo-Silkeborg fyrir tveimur árum.
„Ég lít á þetta sem ákveðinn stökkpall. Mér finnst mjög líklegt að ég verði í Danmörku næstu tvö árin en auðvitað stefni ég svo að því að fara til stærra félags í sterkari deild í framtíðinni,“ segir hann við Morgunblaðið.
Róbert Aron varð Íslandsmeistari með Fram í fyrra og yfirgaf þá liðið til að ganga í raðir Eyjamanna og nú fer hann frá Eyjum eftir eitt tímabil þar.
Hann hefur spilað vel í vetur og skorað 82 mörk í 14 leikjum eða 5,9 mörk að meðaltali í leik. Hann glímdi við meiðsli um mitt mót og missti þá af fimm deildarleikjum.
Eyjaliðið, sem er nýliði í Olís-deildinni, hefur staðið sig frábærlega en það er í öðru sæti, þremur stigum á eftir toppliði Hauka þegar fjórar umferðir eru eftir. Það er með þriggja stiga forystu á Val og líklegt til að landa heimaleikjarétt í undanúrslitum úrslitakeppninnar.
Mors-Thy endaði í 10. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og leikur nú í umspili um áframhaldandi veru í deildinni.
