Olíustofnun Noregs hefur í fyrsta sinn reiknað áætlaðar olíulindir á Jan Mayen-svæðinu inn í opinbert mat um framtíðarauðlindir Norðmanna. Nýtt mat um vinnanlega olíu á norska landgrunninu hækkar um 586 milljónir rúmmetra milli ára og standa suðausturhluti Barentshafs og Jan Mayen-svæðið fyrir 60% af aukningunni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Olíustofnunarinnar.
Olíustofnunin hefur orð á sér fyrir að vera afar varkár og íhaldssöm í birtingu upplýsinga af þessu tagi. Að stofnunin skuli nú taka Jan Mayen-svæðið inn undirstrikar að sérfræðingar stofnunarinnar telja að þegar liggi fyrir nægilega traustar vísindalegar niðurstöður sem leggja megi til grundvallar við mat á vinnanlegum auðlindum í olíu og gasi á svæðinu.
Matið er í samræmi við sérstakt auðlindamat um norska hluta Jan Mayen-svæðisins sem Olíustofnunin birti í byrjun síðasta árs. Það þóttu gleðifréttir fyrir Íslendinga, bæði vegna 25% nýtingarréttar Íslands á stórum hluta svæðisins, og einnig vegna nálægðar og skyldleika við íslenska hluta Jan Mayen-svæðisins, sem Íslendingar kalla Drekasvæðið.
Talan fyrir Jan Mayen-svæðið, sem nú fór inn á auðlindareikning Noregs, er 90 milljónir rúmmetra. Það er ein lægsta talan úr nokkrum sviðsmyndum sem birtar voru í fyrra en sú hæsta var upp á 640 milljónir rúmmetra, sem eru um fjórir milljarðar olíutunna.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki birt samsvarandi mat á kolvetnisauðlindum Íslendinga. Olíuleitarfélagið Eykon áætlaði hins vegar í haust á grundvelli norska matsins hvað væri á Drekasvæðinu og taldi auðlindirnar þar helmingi meiri en þær sem væru Noregsmegin, eða sex milljarðar olíutunna.