Ómöguleikinn og óminnishegrinn Ólafur Stephensen skrifar 27. mars 2014 09:30 Ýmsir forystumenn í stjórnarliðinu eru byrjaðir að viðurkenna að hörð viðbrögð almennings við þingsályktunartillögunni um að slíta viðræðunum við Evrópusambandið, án þess að spyrja þjóðina álits, hafi komið þeim á óvart. Utanríkisráðherrann sagði á Bylgjunni fyrr í vikunni að hann væri meira að segja ekki frá því að það hefðu verið mistök að æða fram með tillöguna. Þetta breytir þó nákvæmlega engu um málflutning stjórnarmeirihlutans. Talsmenn hans eru áfram fastir í „ómöguleikanum“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði til dæmis fjálglega um það í Sprengisandi síðastliðinn sunnudag hvað hann væri hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum, en að auðvitað væri ekki hægt að halda atkvæðagreiðslu sem kynni að verða til þess að ríkisstjórnin þyrfti að gera eitthvað sem hún er á móti. Þá er auðvitað stóra spurningin, sem stjórnarliðar hafa ekki svarað: Má bara halda þjóðaratkvæðagreiðslur um mál þegar líklegt er að niðurstaðan sé stjórnvöldum þóknanleg? Í sama viðtali hélt forsætisráðherrann undarlegan fyrirlestur um að umsókn Íslands um aðild að ESB hefði verið lögð fram „í leyfisleysi“ og þetta „mætti ekki“. Hann vitnaði reyndar ekki í nein lög eða reglur máli sínu til stuðnings. Staðreyndin er að ekkert ríki, sem samið hefur um aðild að ESB, hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að sækja um aðild. Þau hafa hins vegar öll haldið atkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn. Sú vegferð, sem fyrrverandi ríkisstjórn hóf, gerði að sjálfsögðu ráð fyrir slíku. Ísland gengi aldrei í ESB án atbeina þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn vill hins vegar slíta viðræðunum og hindra þannig að almenningur fái nokkurn tímann að segja sína skoðun á aðildarsamningi. Forsætisráðherrann sér nú öll tormerki á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna, af því að ekki sé búið að breyta stjórnarskránni þannig að hún yrði bindandi. Á þessum málflutningi mætti taka mark ef hann hefði nefnt fyrir kosningar að slík breyting yrði að koma til í þessu máli. En það var bara ekki nefnt. Þá sáu menn ekkert vandamál við að spyrja þjóðina. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var líka í Sprengisandi og viðurkenndi að hann læsi blöðin og hefði áttað sig á þrýstingnum í samfélaginu. „Við hins vegar vitum líka að það þýðir ekki að hlaupa endilega á eftir öllum undirskriftasöfnunum sem eru í gangi á hverjum tíma. Þær ráða ekki niðurstöðu máls,“ sagði Birgir. Þetta væri rétt hjá honum ef þeir rúmlega 53.000 kjósendur, sem hafa undirritað áskorun um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðnanna, væru að setja á dagskrá eitthvert alveg nýtt mál, sem hefði ekkert verið til umfjöllunar í pólitíkinni. En þessi tæplega 22 prósent kjósenda krefjast þess einungis að staðið verði við algjörlega skýr og ljós kosningaloforð, sem samflokksmenn Birgis gáfu ítrekað fyrir þingkosningarnar í fyrra. Einhvers konar óminnishegri virðist sveima yfir þingflokksherbergjum stjórnarflokkanna og gera alla orðræðu þeirra um þetta stóra mál svo skrýtna og órökrétta. Stjórnarþingmenn virðist ekkert muna eftir kosningaloforðunum. Það er þá hlutverk almennings að halda áfram að minna þá á hverju var lofað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun
Ýmsir forystumenn í stjórnarliðinu eru byrjaðir að viðurkenna að hörð viðbrögð almennings við þingsályktunartillögunni um að slíta viðræðunum við Evrópusambandið, án þess að spyrja þjóðina álits, hafi komið þeim á óvart. Utanríkisráðherrann sagði á Bylgjunni fyrr í vikunni að hann væri meira að segja ekki frá því að það hefðu verið mistök að æða fram með tillöguna. Þetta breytir þó nákvæmlega engu um málflutning stjórnarmeirihlutans. Talsmenn hans eru áfram fastir í „ómöguleikanum“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði til dæmis fjálglega um það í Sprengisandi síðastliðinn sunnudag hvað hann væri hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum, en að auðvitað væri ekki hægt að halda atkvæðagreiðslu sem kynni að verða til þess að ríkisstjórnin þyrfti að gera eitthvað sem hún er á móti. Þá er auðvitað stóra spurningin, sem stjórnarliðar hafa ekki svarað: Má bara halda þjóðaratkvæðagreiðslur um mál þegar líklegt er að niðurstaðan sé stjórnvöldum þóknanleg? Í sama viðtali hélt forsætisráðherrann undarlegan fyrirlestur um að umsókn Íslands um aðild að ESB hefði verið lögð fram „í leyfisleysi“ og þetta „mætti ekki“. Hann vitnaði reyndar ekki í nein lög eða reglur máli sínu til stuðnings. Staðreyndin er að ekkert ríki, sem samið hefur um aðild að ESB, hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að sækja um aðild. Þau hafa hins vegar öll haldið atkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn. Sú vegferð, sem fyrrverandi ríkisstjórn hóf, gerði að sjálfsögðu ráð fyrir slíku. Ísland gengi aldrei í ESB án atbeina þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn vill hins vegar slíta viðræðunum og hindra þannig að almenningur fái nokkurn tímann að segja sína skoðun á aðildarsamningi. Forsætisráðherrann sér nú öll tormerki á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna, af því að ekki sé búið að breyta stjórnarskránni þannig að hún yrði bindandi. Á þessum málflutningi mætti taka mark ef hann hefði nefnt fyrir kosningar að slík breyting yrði að koma til í þessu máli. En það var bara ekki nefnt. Þá sáu menn ekkert vandamál við að spyrja þjóðina. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var líka í Sprengisandi og viðurkenndi að hann læsi blöðin og hefði áttað sig á þrýstingnum í samfélaginu. „Við hins vegar vitum líka að það þýðir ekki að hlaupa endilega á eftir öllum undirskriftasöfnunum sem eru í gangi á hverjum tíma. Þær ráða ekki niðurstöðu máls,“ sagði Birgir. Þetta væri rétt hjá honum ef þeir rúmlega 53.000 kjósendur, sem hafa undirritað áskorun um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðnanna, væru að setja á dagskrá eitthvert alveg nýtt mál, sem hefði ekkert verið til umfjöllunar í pólitíkinni. En þessi tæplega 22 prósent kjósenda krefjast þess einungis að staðið verði við algjörlega skýr og ljós kosningaloforð, sem samflokksmenn Birgis gáfu ítrekað fyrir þingkosningarnar í fyrra. Einhvers konar óminnishegri virðist sveima yfir þingflokksherbergjum stjórnarflokkanna og gera alla orðræðu þeirra um þetta stóra mál svo skrýtna og órökrétta. Stjórnarþingmenn virðist ekkert muna eftir kosningaloforðunum. Það er þá hlutverk almennings að halda áfram að minna þá á hverju var lofað.