Bíó og sjónvarp

Er þetta nýi Indiana Jones?

Harrison Ford og Bradley Cooper
Harrison Ford og Bradley Cooper Vísir/Getty
Samkvæmt slúðurmiðlum vestanhafs er leikarinn góðkunni Bradley Cooper líklegur arftaki Harrisons Ford í hlutverk hins ævintýragjarna prófessors, Indiana Jones.

Fimmta kvikmyndin um ævintýri hins sívinsæla Indiana Jones er væntanleg, en síðasta mynd kom út árið 2008 og heitir Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull.

Talsmenn leikaranna tveggja hafa ekkert viljað segja um hvort eitthvað sé til í þessum sögusögnum, en Ford ýjaði þó að því í viðtali á dögunum að hann væri ekki dauður úr öllum æðum.

„Við höfum fylgt karakternum eftir og séð hann vaxa og dafna í mörg ár. Mér finnst enn í lagi að hann snúi aftur í frábærri mynd, þar sem hann þarf kannski ekki að slást jafnmikið,“ sagði Harrison Ford í viðtali við The Telegraph, en leikarinn verður 72 ára gamall í júlí á þessu ári. 

Á slúðurmiðlinum Latino Review segir þó að tíminn sé að renna út fyrir Ford. 

„Það er tímarammi og ef að Indiana Jones 5 verður ekki enn tilbúin, eru kvikmyndaverin 100 prósent tilbúin til þess að ráða inn yngri Dr. Jones.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×