Rússneskar hersveitir réðust á herstöð úkraínska flughersins skammt frá borginni Sevastópól á Krímskaga í dag. Að minnsta kosti einn særðist í átökum, en skothríð og sprengingar heyrðust að sögn fréttastofu BBC. Hermennirnir óku niður hlið á brynvörðum bílum og er herstöðin nú á valdi Rússa.
Fyrr í dag hertóku nokkur hundruð mótmælenda herstöð úkraínska flotans á vesturhluta skagans. Engan sakaði þó og yfirgáfu úkraínsku hermennirnir stöðina eftir stuttar samningaviðræður við Rússana.
Innlimun Krímaskaga í Rússland var formlega lokið í gær og sagði Vladímír Pútín Rússlandsforseti að um sögulegan viðburð væri að ræða. Vesturveldin hafa fordæmt innlimunina og hafa bæði Bandaríkin og Evrópusambandi beitt rússneska ráðamenn viðskiptaþvingunum vegna málsins.
Rússar réðust á herstöð úkraínska flughersins
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
