Hafþór þurfti að vinna Atlas-steinana, sem var lokagreinin, og treysta á að Zydrunas Zavickas yrði þriðji. Zavickas náði aftur á móti öðru sætinu en hann var 44 sekúndubrotum á undan næsta manni. Þetta voru sekúndubrotin sem skildu á milli hans og Hafþórs.
Hér að neðan má sjá Hafþór og Zavickas í Atlas-steinunum en í kjölfarið tók við erfið bið eftir staðfestum úrslitum í keppninni. Bið sem tók á taugarnar.
Hafþór var langt á undan Zavickas en tími keppinautar hans var samt sá tími sem einnig skipti öllu máli. Vonbrigðin leyna sér ekki er Hafþór kemst að því að hann hafði lent í öðru sæti.
„Þetta var þvílík dramatík á meðan ég þurfti að bíða eftir að það yrði krýndur sigurvegari,“ segir Hafþór. „Það var svakaleg stemning og mikil spenna.“