Þeir sem horfa á milljarða fjárfestingar Róberts Guðfinnssonar á Siglufirði þessi misserin spyrja sig: Hvaðan fær maðurinn alla þessa peninga? Í þættinum „Um land allt” annaðkvöld svarar Róbert þessari spurningu; hann segir að nánast allt sé hagnaður af verkefnum erlendis.
„Við vorum í uppsjávarfiski, veiðum og vinnslu í Mexíkó. Við vorum í laxeldi í Chile. Við vorum í túnfiskeldi í Mexíkó. Og svo vorum við með aðrar fjárfestingar fyrir utan þetta erlendis. Og verðum við ekki bara að segja það að okkur hafi bara gengið vel,” segir Róbert.
Hann segist þó hafa tapað á sumu en grætt vel á öðru, einkum túnfiskeldinu, en það fer þannig fram að ungur fiskur er veiddur í net en síðan fluttur lifandi í eldiskvíar þar sem hann er alinn upp í sláturstærð.

-Er þetta þá túnfiskgróðinn?
„Nei, þetta er meira uppsöfnuð verkefni í gegnum árin. sem er eiginlega verið bara að selja til þess að afraksturinn af þessum árangri í gegnum árin lendi hér norður undir heimskautsbaug, á Siglufirði.”
Í þættinum „Um land allt”, sem sýndur verður á Stöð 2 klukkan 19.20 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, skýrir Róbert frá því hversvegna hann flutti óvænt frá Íslandi fyrir tíu árum eftir að hafa gert hallarbyltingu í stærsta fyrirtæki Íslands. Einnig verður rætt við fleiri Siglfirðinga um þá endurreisn sem bærinn er nú að ganga í gegnum. Þetta verður síðari þáttur af tveimur en þann fyrri má sjá hér.