Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson skoðar nú með Landsvirkjun hagkvæmni þess að reisa efnaverksmiðju á Siglufirði, sem myndi framleiða sóta, sýru, klór og vetni. Róbert vonast til skapa eitthundrað ný störf í bænum á næstu árum í fjölbreyttri atvinnustarfsemi.
Stöð 2 hefur að undanförnu verið að fjalla um margra milljarða króna fjárfestingar Róberts Guðfinnssonar á Siglufirði og hann virðist hvergi nærri hættur. Í janúar keypti hann gömlu síldarverksmiðjurnar, meðal annars með það í huga að hefja þar efnaframleiðslu í tengslum við líftæknifyrirtækið Genís.
Nú hafa Genís og Landsvirkjun gert samstarfssamning um gerð viðskiptaáætlunar fyrir klór-alkalí verksmiðju en hún notar mikla raforku og flokkast undir orkufrekan iðnað. Í viðtali við Stöð 2 segir Róbert að verkmiðjan myndi framleiða sóta, sýru, klór og lítilsháttar vetni en þessi efni þarf vegna vinnslu Genís á kítin úr rækjuskel.
Róbert leggur áherslu á að laða ungt vel menntað fólk til bæjarins. Klór-alkalí verksmiðjan sem slík þyrfti þó aðeins 5-7 starfsmenn en mun fleiri yrðu í annarri starfsemi Genís. Spurður hvað hann verði kominn með marga í vinnu á Siglufirði þegar allt verður komið í gang sem hann vinnur nú að svarar Róbert að hann vonist til að innan fimm til sjö ára verði starfsmenn orðnir um eitthundrað talsins.
Í þættinum “Um land allt” á þriðjudagskvöld verður áfram fjallað um Róbert og fjárfestingar hans á Siglufirði. Þar verður Róbert spurður hvað honum gangi til; hvort þetta sé gert af hugsjón eða í hagnaðarvon, og hann skýrir jafnframt frá velgengni sinni í útlöndum síðastliðinn áratug og hvernig hann efnaðist. Þetta verður seinni þáttur af tveimur en þann fyrri má sjá hér.
