Körfubolti

Fjölnir endurheimti úrvalsdeildarsætið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fjölnismenn fagna sætinu í úrvalsdeildinni fyrir austan í kvöld.
Fjölnismenn fagna sætinu í úrvalsdeildinni fyrir austan í kvöld. Mynd/Austurfrétt.is/Gunnar Gunnarsson
Fjölnir komst upp í Dominos-deild karla í körfubolta á ný eftir annan sigur á Hetti, 98-81, í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum í kvöld.

Liðin áttust við í úrslitaviðureign umspilsins um síðasta lausa sætið í Dominos-deildinni en Fjölnir vann fyrsta leikinn á heimavelli og einvígið því 2-0.

Höttur byrjaði betur í kvöld og var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 21-17. Fjölnismenn lögðu grunninn að sigrinum í öðrum leikhluta sem þeir unnu með 20 stiga mun, 33-13, en gestirnir voru yfir í hálfleik, 50-34.

Hattarmenn sóttu heldur betur í sig veðrið í síðasta leiklutanum og minnkuðu muninn mest í sex stig, 84-78, en Fjölnismenn héldu út og fögnuðu úrvalsdeildarsæti í leikslok.

Daron Lee Sims var stigahæstur Fjölnis með 27 stig og 18 fráköst en Páll Fannar Helgason var einnig öflugur og skoraði 25 stig.

Hjá Hetti var Gerard Robinson stigahæstur með 26 stig og 14 fráköst og Andrés Kristleifsson skoraði 18 stig og tók 12 fráköst.

Fjölnir fer upp úr 1. deildinni með Tindastóli en þetta eru sömu lið og féllu úr Dominos-deildinni á síðustu leiktíð. Bæði lið endurheimtu sæti sín eftir ársdvöl í næstefstu deild.

Myndina af fögnuðu Fjölnismanna hér að ofan tók Gunnar Gunnarsson fyrir austurfrétt.is í kvöld.

Höttur-Fjölnir 81-98 (21-17, 13-33, 22-25, 25-23)

Höttur: Gerald Robinson 26/14 fráköst, Andrés  Kristleifsson 18/8 fráköst, Austin Magnus Bracey 17/4 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 9/9 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Viðar Örn Hafsteinsson 3.

Fjölnir: Daron Lee Sims 27/18 fráköst, Páll Fannar Helgason 25, Róbert Sigurðsson 15/5 stoðsendingar, Garðar Sveinbjörnsson 12/4 fráköst, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 10, Ólafur Torfason 3/11 fráköst/6 stoðsendingar, Andri Þór Skúlason 3, Davíð Ingi Bustion 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×