"Þessi leikur toppar allt sem ég hef gert. Ertu að grínast í mér. Þetta er besta tilfinning í heimi," sagði hetja ÍBV í kvöld, Agnar Smári Jónsson, en hann fór algjörlega hamförum þegar ÍBV tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í kvöld.
Hann skoraði úr fyrstu átta skotum sínum í leiknum. Endaði með þrettán mörk í heildina og þar af skoraði hann markið sem skildi liðin að í lokin. Þvílík frammistaða.
"Það voru ekki bara einhverjir fjórtán leikmenn að vinna þennan titil heldur öll eyjan. Vestmannaeyjar unnu þennan titil. Horfðu bara á þetta fólk. Þetta fólk á endalaust hrós skilið. Það mætti halda að það væri styttra frá Eyjum til Ásvalla en frá Hafnarfirði til Ásvalla."
Agnar Smári kom til Eyja að láni frá Valsmönnum sem höfðu ekki not fyrir hann. Þeir höfðu ekki not fyrir manninn sem kláraði Íslandsmótið í oddaleik.
"Ég er auðvitað Valsari innst inni en ég er orðinn mesti Eyjamaður í heimi núna. Þetta eru bestu skipti í heimi. Ég er að bresta í grát hérna. Þetta er magnað."
Agnar Smári: Orðinn mesti Eyjamaður í heimi

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - ÍBV 28-29 | ÍBV Íslandsmeistari
ÍBV varð í kvöld Íslandsmeistari karla í handknattleik í fyrsta skipti er liðið vann ævintýralegan sigur á Haukum í oddaleik. Gríðarlega jafn leikur en Eyjapeyjar kórónuðu ævintýri vetrarins með mögnuðum sigri.