"Hvert augnablik skiptir máli í leikjum sem þessum," sagði Rafael Nadal eftir að hafa tryggt sér sigurinn á Opna franska meistaramótinu í tennis í dag.
Spánverjinn sigraði Novak Djokovic í fjórum settum, 3-6, 7-5, 6-2, 6-4, en þetta var fimmti sigur Nadals í röð á Opna franska, en alls hefur hann unnið mótið níu sinnum, oftar en nokkur annar.
Nadal bar mikið lof á andstæðing sinn eftir leikinn.
"Það er alltaf mikil áskorun að leika gegn Novak, ég hafði tapað fjórum sinnum í röð fyrir honum. Ég finn til með honum í dag, hann á skilið að vinna þetta mót," sagði Nadal sem hefur sigrað Djokovic á Opna franska síðustu þrjú árin.
"Þetta er frábær og mjög tilfinningaþrungin stund," sagði hinn nýkrýndi meistari ennfremur.
"Ég tapaði úrslitaleiknum í Ástralíu á árinu þar sem ég glímdi við bakmeiðsli og það var erfitt að kyngja því. Það er ógleymanlegt að leika á Roland Garros og ég vil þakka öllum hér," sagði Spánverjinn.
"Ég vil óska Rafael og liði hans til hamingju, það er ótrúlegt afrek að vinna þessa keppni níu sinnum," sagði Djokovic eftir leikinn.
"Þetta var tilfinningaþrunginn dagur. Ég gaf allt sem ég átti en Rafael reyndist sterkari."
