Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði hafa náð samkomulagi um meirihlutamyndun og verkaskiptingu í nýrri bæjarstjórn en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnafjarðarbæ.
Starf bæjarstjóra verður auglýst laust til umsóknar. Guðlaug Kristjánsdóttir verður forseti bæjarstjórnar og Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs.
Málefnasamningur flokkanna mun vera í burðarliðnum og stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir strax eftir helgi.
Fram kemur í tilkynningunni að rík áhersla verði lögð á jafna verkaskiptingu og virkt samstarf allrar bæjarstjórnar.
