Að sögn hersveita Kúrda er olíuborgin Kirkuk í norðurhluta Írak undir þeirra stjórn. BBC greinir frá þessu.
Kúrdar tóku borgina til að koma í veg fyrir að hún félli í hendur uppreisnarmanna íslamistasamtakanna ISIS. Stjórnarherinn hefur flúið svæðið í nágrenni Kirkuk undan árásum uppreisnarmanna, sem náð hafa nokkrum bæjum á svæðinu á sitt vald.
Talið er að uppreisnarmenn hyggist forðast bardaga við hersveitir Kúrda í norðurhluta landsins en ætli sér frekar að sækja í átt til höfuðborgarinnar Bagdad úr vestri, frá borginni Fallujah, sem þeir hafa á valdi sínu.
Kúrdar hafa lengi stefnt að því að borgin Kirkuk verði hluti af sjálfstjórnarsvæði þeirra í norðurhluta Írak.

