Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis.
Birkir, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í fótbolta, gegndi stöðu viðskiptastjóra hjá einkabankaþjónustu Glitnis. Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Var ákæran á hendur þeim í sex liðum.
Í fyrsta lagi voru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita BK-44 lánið til að kaupa bréf í bankanum. Bréfin voru keypt aftur af Birki sumarið 2008 á yfirverði, samkvæmt ákæru, og var tjónið af því metið á 1,9 milljarða.
Í öðru lagi voru Elmar og Jóhannes ákærðir fyrir umboðssvik með því að gera „munnlegan samning við ákærða Birki um skaðleysi félags hans“ – að hann gæti ekki tapað á viðskiptunum vegna þess að bréfin yrðu keypt aftur seinna á gamla verðinu óháð markaðsvirði.

Í fjórða lið var Birkir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum, en til vara hylmingu og peningaþvætti, „með því að hafa lagt á ráðin með meðákærðu“ um fléttuna. Honum hafi hlotið, sem starfsmanni bankans, að vera ljóst að viðskiptin væru óeðlileg og brytu í bága við reglur bankans.
Í fimmta ákærulið var Jóhannesi, Elmari og Birki gefin að sök markaðsmisnotkun, þar sem viðskiptin hafi byggst á „blekkingum og sýndarmennsku“ og verið líkleg til að gefa markaðnum villandi hugmynd um eftirspurn bréfa í bankanum.
Í síðasta liðnum var Birkir ákærður fyrir „meiriháttar brot gegn ársreikningalögum“ með því að greina ekki að nokkru leyti frá láninu í ársreikningi BK-44 fyrir árið 2007.