Norska úrvalsdeildarfélagið Rosenborg rak í morgun þjálfara sinn, Per Joar Hansen.
Rosenborg tapaði óvænt fyrir írska liðinu Sligo Rovers, 2-1, á heimavelli í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA sem virðist hafa gert útslagið.
Ivar Koteng, einn forráðamanna Rosenborg, staðfesti þetta í norskum fjölmiðlum í morgun og sagði að í raun hefði verið gengið frá starfslokum Hansen fyrir þremur dögum síðan.
Það þýðir að 1-0 sigur Rosenborg á Sogndal í norsku úrvalsdeildinni í gær dugði ekki til að koma Hansen til bjargar. Rosenborg er í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn með 30 stig, níu stigum á eftir toppliði Molde.
Hansen var ekki í miklum metum hjá stuðningsmönnum Rosenborg sem mótmæltu ráðningu hans á sínum tíma. Koteng sagði að úrslit liðsins væru ekki vandamálið heldur frammistaðan í leikjum og þróun liðsins undanfarna mánuði.
