Guðmundur Magnússon og Viktor Unnar Illugason skoruðu báðir þrennu fyrir HK í kvöld þegar Kópavogsliðið vann 6-0 útisigur á Selfossi í 15. umferð 1. deildar karla í fótbolta. KA-menn unnu einnig útisigur í deildinni í kvöld.
HK, sem er nýliði í deildinni, komst upp í 3. sæti deildarinnar með þessum sigri en Þorvaldur Örlygsson er að gera góða hluti með liðið.
Guðmundur Magnússon skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og svo 2 af 3 mörkum HK á fyrstu sex mínútum síðari hálfleiksins. Viktor Unnar Illugason skoraði fyrsta mark seinni hálfleiksins og bætti síðan tveimur mörkum við á lokakaflanum.
Guðmundur Magnússon kom til HK á dögunum frá Fram og hefur skorað fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með liðinu. Viktor Unnar nær tvöfaldaði markaskor sitt í sumar en hann var kominn með fjögur mörk fyrir leikinn.
Arsenij Buinickij og Ævar Ingi Jóhannesson skoruðu mörk KA í 2-0 útisigri á botnliði Tindastóls.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.
Tveir HK-ingar með þrennu á Selfossi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion
Enski boltinn




Segist viss um að Isak fari ekki fet
Fótbolti



