Tveimur leikjum er lokið í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Kristinn Steindórsson var hetja Halmstad sem vann mikilvægan situr á Djurgården á heimavelli. Kristinn skoraði sigurmarkið í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Viktor Ljung. Þetta var þriðji deildarsigur Halmstad í röð.
Johan Blomberg kom Halmstad yfir á 30. mínútu, en Martin Broberg jafnaði metin aðeins fjórum mínútum síðar. Þannig var staðan þar til Kristinn skoraði sigurmarkið.
Lokatölur 2-1, Halmstad í vil. Með sigrinum komst liðið upp í 10. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 18 umferðir.
Guðlaugur Victor Pálsson lék sinn fyrsta leik fyrir Helsingborg sem gerði gerði markalaust jafntefli við Norrköping á heimavelli. Þetta var fimmta jafntefli Helsingborgar í röð í deildinni.
Guðlaugur, sem gekk til liðs við Helsingborg á dögunum, kom inn á sem varamaður á 75. mínútu fyrir landa sinn, Arnór Smárason. Þá lék Arnór Ingvi Traustason fyrstu 78 mínútur leiksins fyrir Norrköping.
Norrköping situr í 9. sæti með 21 stig, en Helsingborg er í 13. sæti með 19 stig.
