Silfurskeiðin, stuðningsmannasveit Stjörnunnar, þekkir það vel að fylgja sínum liðum niður í Laugardal með það markmið að vinna bikarinn. Fótboltakonur félagsins spila bikarúrslitaleik á móti Selfossi á Laugardalsvelli á morgun.
Úrslitaleikur Borgunarbikars kvenna á morgun verður níundi bikarúrslitaleikur Stjörnunnar á síðustu þremur árum í fótbolta, körfubolta, handbolta eða blaki. Karlarnir hafa spilað sex af þessum leikjum en þetta er þriðji úrslitaleikurinn hjá konunum.
Stjörnukonur unnu bikarinn í fyrsta og eina skiptið fyrir tveimur árum og það er aðeins annar af tveimur sigruleikjum Stjörnuliða í bikarúrslitaleikjum frá 2012. Hinn bikarinn vann karlalið félagsins í körfubolta í febrúar 2013.
Kvennalið Stjörnunnar hefur verið á miklu skriði í sumar og er með yfirburðarforystu í Pepsi-deildinni. Garðbæingar eiga því mjög góða möguleika á því að vinna tvöfalt í sumar.
Bikarúrslitaleikur Stjörnunnar og Selfoss hefst klukkan 16.00 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport sem og inn á Vísi.
Bikarúrslitaleikir Stjörnunnar 2012-14:
- 2014 -
Bikarúrslitaleikur kvenna í fótbolta: Mæta Selfossi á morgun
Bikarúrslitaleikur kvenna í handbolta: 19-24 tap fyrir Val [Silfur]
- 2013 -
Bikarúrslitaleikur karla í fótbolta: 4-6 tap fyrir Fram í vítakeppni [Silfur]
Bikarúrslitaleikur karla í blaki: 2-3 tap fyrir HK [Silfur]
Bikarúrslitaleikur karla í handbolta: 24-33 tap fyrir ÍR [Silfur]
Bikarúrslitaleikur karla í körfubolta: 91-79 sigur á Grindavík [Gull]
- 2012 -
Bikarúrslitaleikur kvenna í fótbolta: 1-0 sigur á Val [Gull]
Bikarúrslitaleikur karla í fótbolta: 1-2 tap fyrir KR [Silfur]
Bikarúrslitaleikur karla í blaki: 1-3 tap fyrir KA [Silfur]

