Marussia liðið í Formúlu 1 hefur ákveðið að Alexander Rossi aki fyrir liðið í belgíska kappakstrinum í stað Max Chilton. Samningaviðræður á milli Marussia og Chilton virðast hafa strandað.
Þessi yfirlýsing frá Marussia liðinu kemur þónokkuð á óvart.
Hér má lesa hana í heild sinni:
„Marussia Formúlu 1 liðið vill veita Alexander Rossi tækifæri til að aka í sinni fyrstu keppni í Belgíu á Spa-Francorchamps brautinni.
Alexander mun aka við hlið Jules Bianchi, hann kemur inn fyrir Max Chilton á meðan samningaumleitan stendur yfir.
Alexander kom til liðsins sem vara ökumaður í síðasta mánuði sú ákvörðun var tilkynnt á brautinni í Ungverjalandi. Hann hefur tekið þátt í mörgum föstudagsæfingum með fyrrverandi liði sínu en um helgina mun hann keppa í Formúlu 1 bíl í fyrsta skipti.“
Þetta er þriðja ökumannsbreytingin í vikunni. Kamui Kobayashi mun ekki aka fyrir Caterham um helgina og Jean-Eric Vergne verður ekki með Toro Rosso á næsta tímabili. Það er greinilegt að allt er á fullu á ökumannsmarkaðnum.
