Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, sem staddur er við gosstöðvarnar í Holuhrauni þar sem ný gossprunga hefur opnast, náði mynd af þeim í morgun. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birtir myndina á Facebook-síðu sinni í dag.
Ármann staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun að nýja sprungan hefði opnast sunnan við gossprunguna þaðan sem 12 ferkílómetrar hrauns hafa flætt undanfarna daga. Sprungan teygir sig í áttina að Dyngjujökli en ljóst er að gjósi undir jökli fylgir því mikil hætta á flóði.
Lögreglustjórinn á Húsavík hefur ákveðið í ljósi þessara upplýsinga að loka fyrir alla frekari umferð inn á svæðið norðan Vatnajökuls. Fjölmiðlar og vísindamenn hafa til þessa haft takmarkaðan aðgang að svæðinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Á meðan þessi óvissa varir er ekki talið rétt að hleypa fleirum inn á svæðið. Jafnframt hefur verið sett upp innri lokun á vegi 910 við Vaðöldu. Þessi ákvörðun verður endurskoðuð um leið og nýjar upplýsingar berast.
Á þessari stundu er ekki vitað hvort viðbúnaðarstigi verður breytt en ef gosið fer undir jökul er fastlega ráð fyrir því gert að um hlaup verði að ræða.
