Theodór Elmar Bjarnason skoraði fyrra mark Randers í 0-2 sigri á Brøndby á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Mark Theodórs kom strax á 4. mínútu, en varamaðurinn Djiby Fall gulltryggði sigurinn með marki á 82. mínútu.
Theodór, sem átti góðan leik fyrir Ísland gegn Tyrklandi á þriðjudaginn, lék allan leikinn fyrir Randers sem er í 3. sæti deildarinnar með 13 stig, jafnmörg og spútniklið Hobro og Nordsjælland sem Ólafur Kristjánsson stýrir.
Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn á sem varamaður á 71. mínútu í liði Brøndby, en þetta var fyrsti leikur hans fyrir félagið.
Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson sat allan tímann á varamannabekk Randers.
