Börnum var ráðlagt að halda sig innandyra á Austfjörðum í gær og sömuleiðis þeir sem ekki ganga fullkomlega heilir til skógar. Þá var fólki ráðlagt frá því að stunda líkamsrækt utandyra. Magn SO2 í lofti mældist 2600 µg/m3 á Reyðarfirði í gær en í morgun var magnið um 250 µg/m3. Styrkur í hreinu andrúmslofti er áætlaður u.þ.b. 1 µg/m3
Guðfinnur, sem sat fund með sérfræðingum Umhverfisstofnunar í morgun, segir mengun enn til staðar og fólk þurfi að vera meðvitað um hana. Magn SO2 á Egilsstöðum mældist 155 µg/m3 í morgun.
Guðfinnur leggur áherslu á að þótt mælt gildi í gær hafi verið á Reyðarfirði þá nái ráðleggingar Umhverfisstofnunar til nærliggjandi svæða líka. Það sé einfaldlega þannig að mælirinn sé á Reyðarfirði og þaðan komi því upplýsingarnar um mengun. Nú sé hins vegar einnig mælir á Egilsstöðum sem hjálpi til.
„Verið er að vinna í því að flytja mæli frá Mývatni til Akureyrar og svo er í skoðun að fá fleiri færanlega mæla til að geta tekið stöðuna á fleiri stöðum,“ segir Guðfinnur.

Til stendur að opna undirsíðu á vef Umhverfisstofnunar í dag þar sem almenningi gefst kostur á að fá svör við spurningum sem upp koma í tengslum við mengunina.
„Við verðum vör við að fólk hafi samband með alls kyns spurningar sem við getum ekki svarað í gegnum tilkynningar frá Almannavörnum,“ segir Guðfinnur. Á nýju síðunni verða allar helstu upplýsingar um hvernig eigi að bregðast við, hver einkenni séu og fleira í þeim dúrnum. Þá verði þar liðurinn spurt og svarað þar sem algengar spurningar landsmanna verða teknar saman.
Reiknað er með því að opna undirsíðuna síðar í dag en þangað til er landsmönnum bent á að spyrja spurninga á Fésbókarsíðu Umhverfisstofnunar. Þá er hægt að senda póst á gos@ust.is.