Umhverfisstofnun hefur sent frá sér áríðandi tilkynningu til íbúa á Reyðarfirði vegna hás styrks brennisteinstvíildis, SO2. Mæling var gerð klukkan 14 í dag og fóru hæstu toppar upp í tæp 2600µg/m3 en styrkur í hreinu andrúmslofti er áætlaður u.þ.b. 1 µg/m3 að því er fram kemur á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða efni í lofti sem berast frá gosstöðvunum í námunda við Bárðarbungu.
„Það mesta virðist gengið yfir og gildi fara lækkandi en óvissa er um framhaldið,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.
„Börn og fólk sem er viðkvæmt fyrir ætti að halda sig innandyra og loka öllum gluggum. Slökkva á loftræstingu þar sem það á við. Heilbrigt fólk ætti ekki að vera í líkamlegri áreynslu utandyra.“
Í umfjöllun á vef Umhverfisstofnunar um brennisteinsdíoxíð/brennisteinstvíildi kemur fram að það hafi neikvæð áhrif á heilsu manna og hár styrkur brennisteinsdíoxíðs geti hindrað öndun, ert augu, nef og háls, valdið köfnun, hósta, öndunarsjúkdómum og óþægindum í brjósti. Einnig hefur það áhrif á öndun plantna, getur valdið drepi og vanlíðan dýra og valdið málmtæringu.

