Bíó og sjónvarp

"Mikill stökkpallur að vinna þessi verðlaun“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aðstandendur myndarinnar með verðlaunin.
Aðstandendur myndarinnar með verðlaunin. Mynd/Helga Rakel
Heimildarmyndin Salóme eftir Yrsu Roca Fannberg var valin besta heimildarmyndin á kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama sem lauk í dag.

Salóme fjallar um fjallar um samband Yrsu við móður sína, Salóme Fannberg veflistakonu. Myndin vann áhorfendaverðlaun á heimildarhátíðinni Skjaldborg í sumar.

Vísir náði tali af Helgu Rakel Rafnsdóttur, aðalframleiðanda myndarinnar. Hún var að vonum afar ánægð með árangurinn.

„Nordisk Panorama er stærsta heimildar-og stuttmyndahátíð á Norðurlöndum og það er því mikill stökkpallur að vinna þessi verðlaun. Myndin er því núna að fara á kvikmyndahátíðir í Íran, Póllandi, Rúmeníu og á Spáni,“ segir Helga Rakel.

Aðspurð segir hún að þær hafi ekki átt von á því að vinna.

„Þetta kom okkur mjög á óvart og það var reyndar líka þannig á Skjaldborg í sumar. Þetta er dálítið áhættusöm mynd, maður var ekki viss hvort að fólk myndi ná henni eða ekki svo við erum bara mjög glaðar með þetta allt saman.“

Salóme verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 6. nóvember nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×