Viðar Örn Kjartansson skoraði enn eitt markið fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, en hann skoraði fyrsta mark liðsins í tapi gegn Rosenborg.
Viðar Örn hélt uppteknum hætti og kom Vålerenga yfir eftir tíu mínútna leik. Niklas Gunnarsson bætti við öðru marki og staðan orðin 0-2 fyrir Vålerenga.
Heimamenn áttu hins vegar eftir að bíta frá sér. Paal Andre Helland minnkaði muninn á 26. mínútu og Mikael Dorsin jafnaði í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Fjögur mörk í fyrri hálfleik og mikið um dýrðir á Lerkendal leikvanginum í Þrándheimi.
Morten Gamst Pedersen, fyrrum leikmaður Blackburn, kom inná fyrir Rosenborg í síðari hálflelik og hann lagði upp sigurmarkið fyrir Tomas Malec stundarfjórðungi fyrir leikslok.
Með sigrinum fer Rosenborg upp í þriðja sæti deildarinnar, en Molde hefur nú þegar tryggt sér titilinn. Vålerenga er í sjötta sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir Rosenborg.
Þess má geta að Hólmar Örn Eyjólfsson spilaði allan leikinn í liði Rosenborg.
Á föstudaginn var tilkynnt að Viðar kæmi til greina sem sóknarmaður ársins í norsku deildinni. Hann er þar að etja kappi við Daniel Chima Chukwu hjá Molde og Fredrik Brustad hjá Stabæk. Hægt er að taka þátt í kosningurinn hér. Viðar er markahæstur í deildinni með 26 mörk, tólf meira en Alexander Söderlund, fyrrum leikmaður FH.
Viðar Örn skoraði og tilnefndur sem framherji ársins
Anton Ingi Leifsson skrifar

Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti





Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti



Belgar kveðja EM með sigri
Fótbolti
