Felipe Massa, ökumaður Williams liðsins í formúlu 1 sagði dekkjaval Pirelli fyrir brasilíska kappaksturinn „hættulegt, mjög hættulegt,“ og „óásættanlegt.“
Hann talaði um að nýtt slitlag sem lagt hefur verið á Interlagos brautina og að það auki slysahætturna að vera með hörð og meðalhörð dekk þar.
Viðbröðg Pirelli voru þau að spyrja liðin hvort þau styðji það að nota frekar meðalhörð og mjúk dekk.
„Dekkjaval fyrir brasilíksa kappaksturinn hefur breyst, eftir að Pirelli óskaði eftir skoðunum liðanna og fékk fyrir því einróma samþykki,“ segir í yfirlýsingu frá ítalska dekkjaframleiðandanum.
„Þrátt fyrir að hörðu og meðalhörðu dekkin hafi verið notuð í Brasilíu síðustu tvö ár, hefur nýtt slitlag á Interlagos valdið því að breytt verður yfir í meðalhörð og mjúk dekk. Þetta nýja val er það sama og verður í bandaríska kappakstrinum helgina á undan,“ sagði einnig í yfirlýsingu Pirelli.
Paul Hembery, deildarstjóri kappakstursdeildar Pirelli bætti við: „Við höfum alltaf sagt að við séum opin fyrir breytingum ef þeirra er óskað. Eftir nánari tæknilega greiningu á nýlögðu slitlagi, ásamt áhættumati á ofhitnun dekkjanna höfum við ákveðið að breyta að þessu sinni og það með einróma sammþykki liðanna.“
Massa, hinn brasilíski er gríðarlega reynslumikill ökumaður og veit sitthvað um hvað hann syngur. Það verður forvitnilegt að sjá hvort fleiri muni leggja til breytingar á dekkjavali í framhaldi af þessu.

