Ísland vann frækinn 2-0 sigur á Hollandi í gær og eins og búast mátti við fara hollenskir fjölmiðlar ekki mjúkum höndum um leikmenn sína.
Fjölmiðlar hér á landi voru vitanlega hæstánægðir með frammistöðu íslensku leikmannanna enda sigur Íslands í gær einn sá merkasti frá upphafi.
„Það rignir fjörkum í Reykjavík,“ er fyrirsögn á umfjöllun ad.nl um frammistöðu hollensku leikmannanna en þar fær enginn leikmaður meira en 6 í einkunn.
Bruno Martins Indi, Daley Blind, Jermaine Lens og þjálfarinn Guus Hiddink fá allir fjóra í einkunn og þeir Robin van Persie og Nigel de Jong þótti litlu skárri með 4,5.
Jasper Cillessen, Stefan de Vrij, Ibrahim Afellay og Arjen Robben fengu allir fimm en bestu leikmenn hollenska liðsins voru bakvörðurinn Gregory van der Wiel og varamaðurinn Klaas-Jan Huntelaar. Báðir voru hæstir með sex.
