Sport

McGregor ætlar að gera allt vitlaust í Brasilíu

Conor er hér til hægri fyrir síðasta bardaga sinn gegn Dustin Poirier.
Conor er hér til hægri fyrir síðasta bardaga sinn gegn Dustin Poirier. vísir/getty
Vélbyssukjafturinn frá Írlandi, Conor McGregor, heldur áfram að stela senunni fyrir UFC-bardagakvöld helgarinnar þó svo hann sé ekki að fara að keppa.

Þá tekur heimsmeistarinn í fjaðurvigt, Jose Aldo, á móti Chad Mendes í Brasilíu. Sigurvegarinn mun svo líklega mæta McGregor í kjölfarið en hann hefur flogið upp styrkleikalistann síðustu mánuði.

McGregor er á leið til Brasilíu þar sem hann ætlar að halda áfram að gera allt vitlaust og ögra bæði Aldo og Mendes.

„Brasilísku áhorfendurnir eru eins og þeir írsku þannig að ég ætla að gera allt brjálað þarna," sagði McGregor.

„Alvöru unnendur íþróttarinnar vita hver ég er. Það munu allir í húsinu þekkja mig. Ég stórefast um að ég muni fá góðar móttökur en ég mun njóta þess. Þetta er viðskipta- og skemmtiferð. Ég mun njóta þess að vera ekki að keppa en allt sem ég geri snýst um risaviðskipti.

„Planið er að fara til Brasilíu í einkaþotu stjórnarformanns UFC en í mínum huga vil ég aðeins ferðast um í eigin einkaþotu."

Bardagakvöldið verður í beinni á Stöð 2 Sport á laugardag. Þetta er annar bardagi Aldo og Mendes en hvernig heldur McGregor að þetta fari?

„Ég held að þetta verði svipað og síðast hjá þeim. Tæknin brást Mendes í fyrri bardaganum og hann hefur ekki enn lagað sinn stíl. Mér finnst Chad vera búinn að vera. Ég hef ekki mikið álit á hvorugum. Ég mun bara njóta þess að horfa."

Hér að neðan má sjá tíst frá McGregor þar sem hann staðfestir að hann sé þegar orðinn stjarna bardagakvöldsins um helgina og er til í meira.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×