Mjöndalen er komið upp í norsku úrvalsdeildina eftir sigur í umspilsleikjum á móti Brann en félagið var ekki búið að vera í efstu deild í 22 ár.
Vegard Hansen hefur verið þjálfari liðsins frá árinu 2006. Hann kom liðinu upp í B-deildina og var búinn að fara með liðið í umspil um sæti í úrvalsdeildinni undanfarin þrjú ár. Nú loksins tókst liðinu að komast aftur upp.
Hansen er strax farinn að huga leikmannahópnum fyrir næsta tímabil og sagðist í viðtali við norska Dagblaðið vera meðal annars að horfa inn á íslenska markaðinn.
„Við höfum fullt af ódýrum leikmönnum sem passa fullkomlega inn í okkar lið og hafa bætt liðið mikið. Við ætlum ekki að veðja á einhverja leikmenn sem við vitum ekkert um. Núna horfum við upp á næstu hillu og viljum fá leikmenn sem eru í toppklassa. Mennirnir sem koma til okkar ættu að vera vel þekktir í norskum fótbolta," sagði Vegard Hansen við Dagbladet.
„Við höfum verið að skoða leikmenn í Svíþjóð og á Íslandi í allt haust og höfum góða mynd af markaðnum þar. Ekki láta ykkur koma á óvart ef að íslenskur eða sænskur leikmaður eigi flott tímabil með liðinu næsta sumar," sagði Hansen og hann fer ekkert í felur með það að leikmenn á Íslandi og í Svíþjóð kosta minna.
„Laun leikmanna á Íslandi og í Svíþjóð sjá til þess að við getum náð í toppleikmenn," sagði Hansen en hann sagði líka að vera fara að kynna nýjan norskan toppleikmann á næstu dögum.
