Sport

Hrafnhildur setti persónulegt met og græddi 74.000 krónur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir er að undirbúa sig fyrir HM í Katar.
Hrafnhildur Lúthersdóttir er að undirbúa sig fyrir HM í Katar. vísir/valli
Hrafnhildur Lúthersdóttir, ein fremsta sundkona þjóðarinnar, hafnaði í öðru sæti í 100 jarda bringusundi á fyrsta Grand Prix-móti bandaríska sundsambandsins sem fram fór í Minneapolis í nótt.

Hrafnhildur, sem kölluð er Hilda vestanhafs, kom í mark á tímanum 59,40 sekúndum sem er hennar besti tími í 100 jarda (91 metra) bringusundi.

Melanie Margalis, 23 ára gömul bandaríkjastúlka, kom fyrst í mark á 58,64 sekúndum og samlanda hennar, Kierra Smith, varð í þriðja sæti á eftir Hrafnhildi á 59,68 sekúndum.

Hrafnhildur keppir í 200 jarda bringu í nótt, en hún er að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í 25 metra laug sem fram fer í Doha í Katar í næsta máuði.

Grand Prix-mótaröðin í Bandaríkjunum er haldin í samstarfi við sundfataframleiðandann Arena og eru í heildina sex mót frá nóvember til júní. Þau fara fram í Minneapolis, Austin, Orlando, Mesa, Charlotte og Santa Clara.

Heildarverðlaunaféð eru 300.000 dalir eða 37 milljónir króna. Sigurvegari hverrar greinar á öllum mótunum fær 1.000 dali (123.000 krónur),  sá sem hafnar í öðru sæti fær 600 dali (74.000 krónur) og bronsverðlaunahafinn fær 200 dali (25.000 krónur).

Hrafnhildur halaði því inn 74.000 krónum í nótt sem kemur sér vel fyrir íslenskan afreksmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×