Eftir að innbyrða aðeins tvö stig í síðustu sex umferðum dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta unnu lærisveinar Ólafs Kristjánssonar í Nordsjælland loks aftur leik í dag.
Þeir höfðu betur gegn Hólmberti Aroni Friðjónssyni og félögum í Bröndby á heimavelli, 2-0, en Hólmbert Aron var í byrjunarliði gestanna.
Joshua John kom Nordsjælland í 1-0 á 15. mínútu og Bröndby missti svo mann af velli fjórum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Dario Dumic fékk að líta rauða spjaldið.
Kasper Lorentzen jók forskotið fyrir heimamenn, 2-0, eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik og þar við sat. Léttir fyrir Ólaf Kristjánsson og hans menn.
Nordsjælland er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn í dag með 24 stig, en Hólmbr og félagar í Bröndby eru sæti ofar með sama stigafjölda.

