Fulltrúar Landsbankans, Fjármálaeftirlitsins og Bankasýslu ríkisins hafa verið boðaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á mánudag til að ræða sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun. Þetta staðfestir Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, í samtali við Vísi.
RÚV greindi frá því fyrr í kvöld að Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefði verið kallaður á fund nefndarinnar til að ræða söluna. Frosti segir þó óvíst hvort Steinþór mæti sem fulltrúi bankans eða einhver annar.
Nokkrir þingmenn hafa undanfarið kallað eftir því að salan á Borgun verði skoðuð, eftir að greint var frá því að bankinn seldi hlutinn sinn fyrir luktum dyrum en ekki í opnu söluferli. Landsbankinn er að langmestu leyti í eigu ríkisins.
„Við ætlum að fræðast um þetta söluferli,“ segir Frosti. „Margir þingmenn hafa spurningar og það er sjálfsagt að þeir fái að leggja þær fram.“
Fulltrúar Landsbankans kallaðir á fund Alþingis

Tengdar fréttir

Þingmaður Framsóknar undrast söluferlið á Borgun
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spyr hvort gamlir draugar séu komnir á kreik við sölu Landsbankans á hlut bankans í Borgun.


Landsbankinn selur hlut sinn í Borgun
Landsbankinn undirritaði í dag samning um sölu á 31,2% eignarhlut sínum í Borgun hf. Söluverðið er 2.184 milljónir króna.