Þrír vaskir bardagakappar frá Mjölni munu keppa í MMA um helgina í Doncaster, Englandi. Þeir Bjarki Ómarsson, Þórir Örn Sigurðsson og Magnús Ingi Ingvarsson lögðu af stað til Englands í gærmorgun ásamt föruneiti.
Bjarki Ómarsson (2-1) berst sinn fjórða MMA bardaga um helgina þegar hann mætir heimamanninum Sam Wilkinson (9-1). Þessi 19 ára strákur sigraði Percy Hess þann 18. október síðastliðinn eftir hengingu í fyrstu lotu.
Þórir Örn Sigurðsson berst sinn fyrsta MMA bardaga og mætir hann Matt Hodgson (2-0). Þórir komst inn í æfingahóp Keppnisliðs Mjölnis í janúar eftir að hafa staðist inntökuprófið með glæsibrag. Fyrr í vikunni var hann gerður að fullgildum meðlimi Keppnisliðsins.
Magnús Ingi Ingvarsson er ekki með andstæðing að svo stöddu en CSFC bardagasamtökin lofuðu honum veltivigtarbardaga á laugardaginn. Magnús Ingi sigraði Ricardo Franco eftir rothögg eftir aðeins 39 sekúndur í fyrstu lotu í október.
Bardagarnir fara fram í CSFC bardagasamtökunum í Doncaster á laugardaginn. Með í för eru þeir Jón Viðar Arnþórsson (formaður Mjölnis) Bjarki Þór Pálsson (þjálfari) og Páll Bergmann (ljósmyndari).
