„Ég ætlaði bara að minna ykkur á leikinn í kvöld, Haukar-Valur. Þetta verður eitthvað," segir Pétur Jóhann Sigfússon í myndbandinu og öskrar síðan bæði "Áfram Haukar" og "Áfram Valur".
Pétur Jóhann er samt vel merktur Val í myndbandinu sem birtist inn á fésbókarsíðu Valsmanna í dag og má einnig finna hér fyrir neðan.
Valsmenn eru á toppnum í Olís-deild karla með 22 stig eða tveimur stigum meira en Afturelding sem er í 2. sætinu. Haukarnir eru í 7. sæti með 12 stig.
Leikur liðanna í kvöld er hluti af fimmtándu umferð Olís-deildarinnar og hefst leikurinn klukkan 19.30 í Vodafone-höllinni.