Innlent

Samningar tókust ekki

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Stefán Árni Pálsson skrifa
Samninganefndir lækna og ríkisins funduðu í allan dag án árangurs. Stefnt er að því að hittast aftur klukkan 10:30 í fyrramálið. Heilbrigðisráðherra segir þolinmæðina gangvart ástandinu vera á þrotum í samfélaginu. 

Samninganefndirnar komu saman til funda klukkan tvö og hafa fundað stíft í allan dag. Aðeins er um vika í að umfangsmiklar verkfallsaðgerðir lækna eigi hefjast og því mikill þrýstingur á að samningar fari að nást.

Aðgerðirnar koma til með að hafa mikil áhrif á heilbrigðiskerfið, sér í lagi á Landspítalann þar sem skurðdeildir munu nær lokast fram að páskum. Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, sagði í fréttum okkar í gær að íslenska þjóðin væri í vondum málum ef samningar nást ekki á næstu dögum í deilunni.

Hún sagði jafnframt ekki koma til greina að draga úr þunga verkfallsaðgerðanna. Töluvert hefur borið í milli í deilunni en það að fundur standi í Karphúsinu gefur von um að eitthvað sé að þokast. Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar lækna varðist fregna þegar fréttastofa reyndi að ræða við hana í Karphúsinu nú undir kvöld.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fylgist náið með framvindu mála. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra: „Þetta er mjög alvarleg staða og ég hef átt viðræður við báða aðila þessarar deilu, það er að segja kjarasamninganefnd ríkis og lækna og hef verið að beita mér í þá veru að samningsaðilarnir nái saman, því að það er alveg augljóst að það er löngu þrotin þolinmæði í samfélaginu gagnvart þessari stöðu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×