Sport

Fimmtán ára strákur farinn að stökkva 22 sentímetra yfir eigin hæð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styrmir Dan Steinunnarson er hér efstur á palli eins og oft á árinu 2014.
Styrmir Dan Steinunnarson er hér efstur á palli eins og oft á árinu 2014. Mynd/Fésbókarsíða Styrmis Dan
Styrmir Dan Steinunnarson er afar efnilegur hástökkvari en þessi fimmtán ára strákur, sem keppir fyrir Þór í Þorlákshöfn, stökk 1,98 metra á Áramóti Fjölnis í gærkvöldi.

Styrmir Dan hefur þar með stokkið hæst allra Íslendinga í hástökki innanhúss á árinu 2014 ásamt tveimur öðrum eða þeim Hermanni Þór Haraldssyni úr FH og Einari Daða Lárussyni úr ÍR.

Auk þess að vera bara fimmtán ára gamall þá er Styrmir einungis 1,76 sentímetrar á hæð. Hann var því að stökkva 22 sentímetra yfir eigin hæð. Það er til vídeó af stökkinu sem sjá má hér fyrir neðan.

Styrmir Dan var að tvíbæta Íslandsmet sitt í flokki fimmtán ára á þessu móti, fyrst með því að stökkva 1,94 metra og svo með því að fara yfir 1,98 metra. Þetta var áttunda og níunda Íslandsmetið hjá Styrmi á árinu 2014.

Styrmir Dan stóð sig líka mjög vel í sumar og náði þá fjórða besta árangri allra Íslendinga í hástökki utanhúss en hann tvíbætti meðal annars Íslandsmetið utanhúss í flokki fimmtán ára pilta flokki þegar hann vann hástökkið í sínum aldursflokki á Gautaborgarleikunum í júní. Styrmir Dan stökk þá 1,94 metra og svo bætti hann metið sitt á unglingalandsmótinu á Sauðárkróki um Verslunarmannahelgina með því að stökkva 1,96 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×