Ellefu Íslendingar voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, nýársdag. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti orðurnar.
Ingvar E. Sigurðsson fékk riddarakross fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar. „Svona kemur manni alltaf á óvart, ég hef ekki sóst eftir þessu en svo í athöfninni sjálfri þegar mér var veittur þessi heiður þá meðtók ég það og er virkilega þakklátur,“ segir Ingvar.
„Við buðum nokkrum í mat og ég mun bera orðuna. Svíarnir kalla svona orður skreytingu, þannig að ég ætla að bera skraut einn dag, það er mjög fínt.“
Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, fékk krossinn fyrir störf í sveitarstjórnarmálum. Hún hélt upp á daginn í faðmi barna og barnabarna.
„Mér finnst þetta býsna merkilegt og er mjög stolt. Fjölskyldan er líka ósköp stolt og við ætlum að borða saman og hafa það huggulegt. Það er svo sannarlega ekki ónýtt að byrja nýtt ár svona.“
Hefja nýja árið með orðu í barminum
Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
