Fagráð valdi úr innsendum tillögum um framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2015 og samdóma álit þess er að tillaga Christophs Büchel myndlistarmanns uppfylli allar þær forsendur sem leitað var eftir. Hún þykir hugmyndafræðilega sterk og eiga erindi við samtímann í íslensku og alþjóðlegu samhengi.
Sýningarstjóri er Nína Magnúsdóttir.
Christoph Büchel fæddist í Basel í Sviss 1966 en hefur búið á Íslandi frá árinu 2007. Hann er vel þekktur á alþjóðavettvangi fyrir konseptverk sín. Hann vinnur í ýmsa miðla en er hvað þekktastur fyrir hugmyndafræðileg verk og stórar og aðstæðubundnar innsetningar.