Mjólkursamsalan (MS) vill hefja framleiðslu á skyri í Bandaríkjunum á árinu. Metið verður hvort íslenskt undanrennuduft verður notað í hluta framleiðslunnar. Þetta segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
„Við erum nú á undirbúningsstigi en við höfum útbúið frumáætlanir um sölu og dreifingu. Við höfum í hyggju að auka verulega starfsemina í Bandaríkjunum og vöxturinn í útflutningi og sölu á skyri í Evrópu hefur gefið okkur undir fótinn með það,“ segir Einar.
MS hefur undanfarin ár flutt skyr út til Bandaríkjanna með flugi. Útflutningurinn hefur ekki skilað tilætluðum árangri en eftirspurnin í Evrópu hefur aukist.
„Útflutningurinn til Bandaríkjanna hefur ekki vaxið með þessum hætti því flutningskostnaður og umsýslan í útflutningi á tilbúinni vöru kemur auðvitað fram í verðinu á markaðinum. Vöxturinn hefur því ekki verið sá sami í Bandaríkjunum og Evrópu.“
Einar segir MS koma að skyrsölu í Evrópu með þrenns konar hætti. Fyrir utan hefðbundinn útflutning hefur MS einnig samið við verktaka í Skandinavíu um framleiðslu og selt fyrirtækjum í Evrópu leyfi til notkunar á skyruppskriftum og mjólkursýrugerlum fyrirtækisins.
„Á þessu ári á Mjólkursamsalan aðild að sölu á fjörutíu milljón skyrdósum í Skandinavíu. Magnið hefur nær tvöfaldast á innan við þremur árum og við erum einnig að fikra okkur inn á nýja markaði eins og Sviss.“
