Samstarfið hófst með því að Kristín Svava fór í nóvember í fyrra ásamt Þórdísi Gísladóttur og Ingunni Snædal til Finnlands þar sem þær lásu upp með finnskum ljóðskáldum. „Þar las Tapio Koivukari með okkur, meðal annars finnskar þýðingar sínar á ljóðunum okkar íslensku skáldanna. Nú koma þau Katariina og Marko til Íslands og lesa upp með okkur og við lesum íslenskar þýðingar Erlu á ljóðunum þeirra,“ segir Kristín Svava.

Ljóðakvöldið annað kvöld er ekki eini viðburðurinn sem finnsku skáldin taka þátt í því á fimmtudagskvöld verður „cover“-ljóðakvöld á Loft hosteli þar sem skáldin lesa eitt ljóð eftir sjálf sig og annað eftir eitthvert annað skáld. „Þar verðum við fjögur sem verðum í Norræna húsinu, Finnarnir og ég og Þórdís, en við bætast Eva Rún Snorradóttir, Mazen Maarouf og Elías Knörr,“ segir Kristín Svava.
Finnsku skáldin munu gera víðreist um Ísland því um næstu helgi verða þau á Hólmavík og síðan ef til vill á Austfjörðum þar sem Ingunn Snædal mun lesa með þeim.